undirsida_lomagnupur02.jpg
AÐGENGI

Táknmálsþýðing

Um stjórnlagaþing, stjórnlaganefnd, þjóðfund og stjórnlagaráð

Þann 16. júní 2010 samþykkti Alþingi lög nr. 90/2010 um stjórnlagaþing. Samkvæmt þeim skyldi boða til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 17. júní 1944. Þinginu var falið að fjalla sérstaklega um eftirfarandi þætti:

 1. Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar
 2. Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra
 3. Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins
 4. Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds
 5. Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan
 6. Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga
 7. Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála
 8. Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
  Stjórnlagaþingið gat ákveðið að fjalla um fleiri þætti en þá sem tilgreindir voru hér að framan.

Kosningar til stjórnlagaþings fóru fram 27. nóvember 2010 og voru 25 fulltrúar kosnir til setu á þinginu, 15 karlar og 10 konur. Kosningaþátttaka var 35%. Framkvæmd kosninganna var kærð og 25. janúar 2011 ógilti Hæstiréttur kosninguna. Í framhaldi af því samþykkti Alþingi ályktun 24. mars þar sem 25 manna stjórnlagaráði, skipað sömu fulltrúum og kosnir voru í stjórnlagaþingskosningunni 2010[1], var falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni.


[1] Allir nema einn þáðu skipan í stjórnlagaráð en í hans stað kom sá sem raðaðist í 26. sæti.

Stjórnlagaþing

Þann 16. júní 2010 samþykkti Alþingi lög nr. 90/2010  um stjórnlagaþing. Samkvæmt þeim skyldi boða til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 17. júní 1944. Þinginu var falið að fjalla sérstaklega um nokkra tiltekna þætti en það hafði heimild til að skoða fleiri teldi það ástæðu til slíks.

Stjórnlaganefnd og þjóðfundur

Samkvæmt lögum um stjórnlagaþing skyldi Alþingi kjósa sjö manna stjórnlaganefnd sem fékk þríþætt hlutverk:

 1. Að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni, vinna úr upplýsingum og afhenda stjórnlagaþingi.
 2. Að annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst gætu stjórnlagaþingi.
 3. Að leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá þegar það kæmi saman. Stjórnlaganefnd var falið sama verkefni gagnvart stjórnlagaráði.

Stjórnlagaráð

Stjórnlagaráði var falið að fjalla um sömu atriði og stjórnlagaþingi hafði verið ætlað að skoða.

Stjórnlagaráð kom saman 6. apríl 2011 og starfaði til 29. júlí sama ár. Þann dag afhenti ráðið forseta Alþingis tillögur að nýrri stjórnarskrá. Í bréfi, sem fylgdi tillögunum, kom fram að fulltrúar í ráðinu væru einhuga um að veita bæri landsmönnum öllum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiddi tillögurnar endanlega.

Deildu