undirsida_thingvellir_02.jpg
AÐGENGI

Táknmálsþýðing

Spurning nr. 2 – Náttúruauðlindir

2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, lýstar þjóðareign?

    

     Nei

Hér er spurt hvort náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, skuli lýstar þjóðareign. Í spurningunni er ekki skilgreint hvaða merkingu hugtakið þjóðareign hefur eða hvað telst til náttúruauðlinda.

Núgildandi fyrirkomulag

Í stjórnarskrá Íslands er ekki ákvæði um eignarhald á náttúruauðlindum, nýtingu þeirra eða meðferð að öðru leyti en því að 2. málsgrein 72. greinar stjórnarskrárinnar heimilar að réttur erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi sé takmarkaður. Löggjafanum er heimilt að setja reglur um meðferð, nýtingu og eignarhald á auðlindum hvort sem þær eru í einkaeigu, ríkiseigu eða eru eigendalausar. Ýmsar reglur um eignarhald á auðlindum, t.d. eignarhald ríkisins á þjóðlendum og auðlindum hafsbotnsins, svo og meðferð auðlinda, t.d. kvótakerfi í fiskveiðum í sjó, er þannig að finna í almennum lögum.

Tillögur stjórnlagaráðs

Í 34. grein tillagna stjórnlagaráðs um náttúruauðlindir er kveðið á um að auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn geti fengið auðlindirnar eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota, aldrei megi selja þær eða veðsetja og þær verði nýttar til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Af skýringum stjórnlagaráðs við tillöguna má ráða að hugtakinu þjóðareign er ætlað að skapa eignarrétt í lagalegri merkingu. Ákvæðinu er ætlað að stofna til sérstakrar tegundar eignarréttar yfir auðlindum þar sem eignarrétti einkaaðila sleppir. Auk þess er fullveldisréttur íslenska ríkisins yfir náttúruauðlindum íslensks yfirráðasvæðis áréttaður.

Í tillögunum eru náttúruauðlindir í þjóðareign skilgreindar sem hvers kyns náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Þá má ákveða í almennum lögum að auðlindir undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar verði þjóðareign. Í skýringum segir að talin séu upp dæmi um helstu tegundir auðlinda í þjóðareigu en upptalningunni sé ekki ætlað að vera tæmandi.

Umræður og álitamál

Undanfarin ár og áratugi hefur í ýmsum Evrópuríkjum verið kveðið á um eignarrétt ríkisins eða þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá. Hins vegar hafa slík ákvæði ekki ætíð sömu merkingu eða stefna að sömu markmiðum. Skiptar skoðanir hafa verið hérlendis um útfærslu slíks ákvæðis í stjórnarskrá.

Með náttúruauðlind er venjulega átt við hvers kyns þætti náttúrunnar, jarðarinnar, lífríkisins, vatns, sjávar, lofts eða sólarljóss sem falið geta í sér verðmæti. Þegar um er að ræða nýtingu villtra dýra getur nýtingar- eða veiðiréttur verið í einka- eða ríkiseigu. Hins vegar geta villt dýr, t.d. óveiddur fiskur, strangt til tekið ekki verið eign í venjulegum skilningi nema dýrin séu veidd eða tekin í vörslur.

Á þessum grundvelli hefur verið bent á að ekki sé ljóst hvaða gæði falli undir hugtakið þjóðareign ef henni er ætlað að stofna til eiginlegs eignarréttar. Þá hefur því einnig verið haldið fram að „þjóðin“ sé of óákveðinn hópur til að geta talist eigandi einhvers. Þjóðareign sé því í raun ríkiseign.

Tillögur um auðlindaákvæði í stjórnarskrá má rekja a.m.k. aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar hér á landi. Í þeim tillögum hefur hugtakið „eign þjóðarinnar“, „þjóðareign“ eða „sameign þjóðarinnar“ þó ekki ætíð verið notað í sömu merkingu.

Annars vegar hefur hugtakið verið látið vísa til eignarréttar í lagalegum skilningi og þá þannig að í þjóðareign felst í raun eignarréttur ríkisins. Jafnan hefur verið gerður sá fyrirvari í þeim tillögum að eingöngu auðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, teljist til þjóðareignar.

Á hinn bóginn hefur með hugtakinu verið vísað til þess að fullveldisréttur íslenska ríksins feli í sér rétt ríkisins til að hlutast til um að náttúruauðlindir séu nýttar til hagsbóta þjóðinni allri. Í þeim tilvikum hefur hugtakið þjóðareign verið látið ná til hvers kyns náttúruauðlinda hvort heldur þær eru í einkaeigu, ríkiseigu eða eigendalausar.

Sjá 34. grein tillagna stjórnlagaráðs hér.

Annað efni sem tengist umfjöllun um náttúruauðlindir:

Deildu