undirsida_lomagnupur01.jpg
AÐGENGI

Táknmálsþýðing

Spurning nr. 4 - Persónukjör

4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

       Já

       Nei

Spurningin á kjörseðlinum snýst um hvort setja eigi í stjórnarskrá ákvæði um persónukjör sem gengur lengra en ákvæði núgildandi kosningalaga. Ekki er spurt um hversu langt eigi að ganga í útfærslu þess að heimila persónukjör í stjórnarskránni.

Með persónukjöri er átt við að kjósandi geti kosið einstaka frambjóðendur, einn eða fleiri, af lista á kjörseðli í stað þess að kjósa á milli lista stjórnmálaflokka eins og tíðkast hefur í alþingiskosningum á Íslandi.

Núgildandi fyrirkomulag

Engin ákvæði um persónukjör eru í núgildandi stjórnarskrá. Samkvæmt 82. grein laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 er kjósendum þó heimilt að strika út frambjóðendur eða breyta röð á listanum sem þeir kjósa. Heimild til uppröðunar var rýmkuð með núgildandi kosningalögum en þá höfðu breytingar kjósenda á atkvæðaseðlum lítil sem engin áhrif haft í meira en hálfa öld. Í alþingiskosningum 2007 og 2009 færðust fjórir frambjóðendur niður um eitt sæti vegna breytinga sem kjósendur gerðu á listanum sem þeir kusu.

Til að breyta röð frambjóðenda um eitt sæti með útstrikun, en það er sú aðferð sem langmest er notuð, þurfa 10-25% kjósenda viðkomandi lista að strika út sama nafnið samkvæmt gildandi ákvæðum. Vilji kjósendur tryggja frambjóðanda öruggt þingsæti eða að frambjóðandi í öruggu sæti falli út af þingi þarf meira til. Allt að helmingur kjósenda listans þarf þá að vera með sams konar útstrikun.

Ákveðin tegund persónukjörs hefur farið fram á Íslandi frá því um 1970 með prófkjörum stjórnmálaflokkanna. Þátttaka í prófkjörum hin síðari ár hefur í flestum tilvikum verið bundin við flokksfélaga eða stuðningsmenn. 

Tillögur stjórnlagaráðs

Í tillögum stjórnlagaráðs er í 39. grein gert ráð fyrir því að röð frambjóðenda á lista stjórnmálaflokks hafi ekki áhrif á hvaða frambjóðendur séu kosnir af listanum heldur veljist frambjóðendur til þingsetu í samræmi við þann fjölda persónulegra atkvæða sem þeir hljóta. Þeir kjósendur sem eingöngu velja lista eftirláta þar með öðrum kjósendum að ákvarða röð frambjóðenda á listanum hvort sem margir eða fáir nýta þann möguleika. Gert er ráð fyrir að kjósendur megi velja frambjóðendur af listum ólíkra stjórnmálasamtaka en löggjafanum verði eftirlátið að ákveða hvort sú heimild verði nýtt.

Umræður og álitamál

Víðast hvar ganga reglur um persónukjör skemur en tillögur stjórnlagaráðs. Í Færeyjum og Finnlandi, Hollandi og á Írlandi er persónukjör þó alls ráðandi. Kjósendur ráða því á kjörstað hverjir ná kjöri af hverjum lista, svipað og stjórnlagaráð leggur til. Þá eru dæmi um blandaðar leiðir, uppstillingar á listum og persónukjör. Fátítt er að hægt sé að kjósa frambjóðendur þvert á framboðslista en slíkt fyrirkomulag er til dæmis á Írlandi.

Sem dæmi um útfærslu reglna, sem auka val kjósenda um persónur, má nefna að í Svíþjóð eru boðnir fram raðaðir listar. Ef 5% kjósenda framboðslista merkja við tiltekinn frambjóðanda fer hann efst á listann. Sama á við ef merkt er við fleiri en einn; þá fara þeir allir efst á listann og raðast innbyrðis í samræmi við fjölda atkvæða. Sjaldgæft hefur verið að sænskir frambjóðendur hafi náð kjöri vegna slíkra breytinga en frá því að kerfið var innleitt 1998 hafa 22-30% kjósenda nýtt réttinn til persónukjörs. 

Annað dæmi er danska leiðin. Í Danmörku er val um að bjóða fram raðaða eða óraðaða lista en flestir flokkar bjóða fram óraðaða lista. Í þingkosningum 2007 raðaði um helmingur kjósenda frambjóðendum og réð þannig hverjir voru kjörnir af einstökum listum.

Helstu rök fyrir auknu persónukjöri eru þau að með því sé val kjósenda aukið og persónuleg ábyrgð stjórnmálamanna sömuleiðis. Kjósandi hefði þá möguleika á að velja þá einstaklinga sem hann telur hæfasta og treystir best til starfa á þingi.

Helstu rök gegn persónukjöri eru þau að ekki sé hægt að fullyrða hver áhrif slíks kerfis gætu orðið. Mikil áhersla á persónur geti ýtt undir ómálefnalega stjórnmálabaráttu og víða hafi persónukjör skapað vanda við að halda utan um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

Sjá 5. mgr. 39. gr. tillagna stjórnlagaráðs hér.

Sjá annað efni sem tengist umfjöllun um persónukjör:

Deildu