undirsida_lomagnupur01.jpg
AÐGENGI

Tillögur

Stjórnarskrá

VI. Kafli - Dómsvaldið

Tillögur stjórnlagaráðs

Afhentar forseta Alþingis  29. júlí 2011

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

1944 nr. 33 17. júní

VI. KAFLI Dómsvald.

98. gr.

59. gr.

Skipan dómstóla.

Skipan dómstóla, þar á meðal dómstig og fjöldi dómara, skal ákveðin með lögum.

 

Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.

99. gr.

Sjálfstæði dómstóla.

Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum.

100. gr.

60. gr.

Lögsaga dómstóla.

Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og sök um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við henni.

Dómstólar skera úr um hvort lög samrýmist stjórnarskrá.

Dómstólar skera úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum. Hjá ákvörðun stjórnvalds verður ekki komist í bráð með því að bera lögmæti hennar undir dóm.

 

Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þó getur enginn, sem um þau leitar úrskurðar, komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms.

101. gr.

Hæstiréttur Íslands.

Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla.

Þó má ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skotið til annarra dómstóla.

102. gr.

61. gr., 2. og 3. málsl.

Skipun dómara.

Dómarar eru þeir sem skipaðir hafa verið ótímabundið í embætti dómara eða settir til að gegna því um tiltekinn tíma. Til dómstarfa geta dómstólar ráðið eða kvatt aðra eftir því sem mælt er fyrir í lögum.
Ráðherra skipar dómara og veitir þeim lausn. Dómara verður ekki vikið endanlega úr embætti nema með dómi, og þá aðeins ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði til að gegna embættinu eða sinnir ekki skyldum sem starfinu tengjast.

 

Þeim dómendum, sem ekki hafa að auk[i] umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana. Þó má veita þeim dómara, sem orðinn er fullra 65 ára gamall, lausn frá embætti, en hæstaréttardómarar skulu eigi missa neins í af launum sínum.

103. gr.

61. gr., 1. málsl.

Sjálfstæði dómara.

Dómarar skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.

 

Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.

104. gr.

Ákæruvald og ríkissaksóknari.

Skipan ákæruvaldsins skal ákveðin með lögum.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvaldsins. Hann skal í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.

Ráðherra skipar ríkissaksóknara og veitir honum lausn. Ríkissaksóknari er sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar.

Deildu